Saga Léttis
Saga hestamannafélagsins
Hestamannafélagið Léttir var stofnað árið 1928. Stofnendur voru 15 talsins. Ekki er með öllu ljóst hvernig nafnið er til komið og ekki mun vera hægt að rekja það til hesta sem tengjast stofnendum félagsins eða Eyjafjarðarsvæðinu. Mun nafnið því líklega vera tekið úr lausu lofti.
Tilgangur félagsins var að stuðla að réttri og góðri meðferð á hestum, efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra og íþróttum, greiða fyrir því að félagsmenn gætu átt hesta og bæta reiðvegi frá Akureyri.
Þessum markmiðum hugðust stofnfélagar ná með því að koma skipan á hagagöngu og hirðingu hesta í eigu félagsmanna, eignast skeiðvöll, efna til kappreiða og vinna að gerð reiðvega í nágrenni Akureyrar.
Á stofnfundinum var inntökugjald í félagið ákveðið 3 krónur en ársgjaldið 6 krónur. Svo gátu menn líka gerst ævifélagar fyrir 50 krónur!
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Pálmi Hannesson, Sigurður E. Hlíðar og Þorsteinn Þorsteinsson.
Léttir er þriðja elsta hestmannafélag landsins, Hestamannafélagið Fákur í Reykjavík er elst, stofnað 1922 en næstelst er Hestamannafélagið Glaður í Dalasýslu, stofnað 1928.
Árið 1929 á fyrsta heila starfsári Léttis gengu 40 menn í félagið og það sama ár héldu Léttismenn sínar fyrstu kappreiðar á Þveráreyrum í Eyjafirði. Þetta sama ár tók félagið á leigu haga fyrir hesta félagsmanna í Ytra Krossanesi og byggði þar rétt. Sérstakir hestaverðir voru fyrstu starfsmenn félagsins og sáu þeir um að sækja hesta í hagann og flytja þá þangað að notkun lokinni. Fyrsti hestavörður félagins var Guðmundur Andrésson. Sumarið 1930 var gerð hlaupabraut á Gleráreyrum og voru þar síðan haldnar kappreiðar. Sumarið 1931 og aftur sumarið 1932 voru haldnar kappreiðar á Melgerðismelum.
Í hönd fóru erfiðir tímar þegar kreppan herjaði á landsmenn fram yfir 1940. Lagðist starfsemi félagsins þá af í 10 ár. Jón Geirsson læknir hafði forgöngu um að endurreisa félagið í maí 1942. Gerður var skeiðvöllur í Stekkjarhólma vestan Eyjafjarðarár og fest kaup á húsi á Eyrarlandsholti. Var það notað sem tamningastöð og hús fyrir hesta félagsmanna allt fram til ársins 1962 er það var rifið. Lengst allra starfaði Þorsteinn Jónsson við þetta hús sem tamningamaður og hirðir.
Á löngum ferli hestamannafélagsins Léttis hafa félagsmenn unnið ótal stundir að hagsmunamálum félagsins. Þungamiðja starfsins hefur jafnan hvílt á formanni félagsins, stjórn og hinum fjölmörgu nefndum sem starfað hafa innan Léttis. Þegar á fyrsta starfsári var skipað í tvær nefndir, Skeiðvallarnefnd sem efna skyldi til kappreiða og annast skeiðvöll Léttismanna og Hestanefnd er meðala annars hafði það verk með höndum að sjá um og útvega haga fyrir hesta félagsmanna.
Það er gaman að segja frá því að Skeiðvallarnefnd er enn að störfum hjá Létti en við hlutverki Hestanefndar hefur tekið Haganefnd. Upplýsingar um starfandi nefndir félagsins er að finna á síðunni.
Árið 1942 hófu Léttismenn uppbyggingu skeiðvallar í svonefndum Stekkjarhólma á vesturbökkum Eyjafjarðarár. Árið 1944 voru þar kappreiðar og voru 10 hestar skráðir í 300 m hlaup og 7 hestar í 250 m hlaup. Sigurvegarar voru hestarnir Haukur og Bógatýr, báðir í eigu Gunnbjörns Arnljótssonar. Veitt voru peningaverðlaun og færðu hlaupagarparnir eiganda sínum samtals 600 krónur fyrir sigursprettina. Kappreiðarnar sóttu um 700 manns. Félagið hefur jafnan staðið fyrir hestaþingum á hverju ári síðan og í seinni tíð eru hestamót á vegum Léttis fjölmörg á hverju ári.
Árið 1950 gerðist Léttir aðili að Landssambandi hestamanna og tóku félagsmenn þátt í landsmótinu á Þingvöllum það ár. Af því tilefni var efnt til hópferðar á Þingvelli, sennilega sú fjölmennasta sem farin hefur verið á vegum félagsins. Þátttakendur voru 27 með 118 hesta. Lagt var upp frá Akureyri laugardaginn 1. júlí og riðið vestur að Kotum og gist þar. Farið var vestur yfir Blöndu á ferju hjá Löngumýri og riðið suður Svínadal, yfir Grímstunguheiði að Húsafelli og til Þingvalla um Kaldadal. Til Þingvalla komu norðanmenn fimmtudaginn 6. júlí. Norður var riðið um Kjöl og komið til Akureyrar 14. júlí. Samkvæmt fundargerðarbókum Léttis gekk ferðin vel og voru ferðalangarnir félaginu til sóma.
Árið 1960 festi félagið kaup á jörðinni Kaupangsbakka af Oddi C. Thorarensen apótekara. Var það fyrst og fremst með sumarhaga fyrir hesta félagsmanna í huga.
Árið 1964 hóf félagið rekstur reiðskóla í samvinnu við Akureyrarbæ. Sá reiðskóli er rekinn enn undir merkjum félagsins og er nú staðsettur á Hamraborgum. Þar er einnig beitarhólf sem Akureyrarbær hefur lánað endurgjaldslaust til beitar fyrir hesta barna og unglinga.
Á landsmóti á Vindheimamelum árið 1974 mættu Léttisfélagar fyrstir hestamannafélaga í samræmdum reiðbúningi, rauðum jakka og ljósum buxum en sá búningur var samþykktur á aðalfundi félagsins það ár og hefur verið búningur félagsins æ síðan. Ljósu buxurnar hafa vikið fyrir hvítum buxum en að öðru leyti er búningurinn óbreyttur enn þann dag í dag.
Árið 1975 var gerður samningur um aðild að keppnissvæðinu á Melgerðismelum, ásamt hestamannafélögunum Þráni og Funa. Árið 1976 var þar haldið Fjórðungsmót norðlenskra hestamanna.
Félagið hefur á leigu eyðibýlið Sörlastaði í Fnjóskadal sem félagsmenn hafa gert upp og nota sem sumardvalarstað. Þar er veðursæld mikil og einstakar reiðleiðir í allar áttir.
Heimildir: Á 65 ára afmæli félagsins árið 1993 var gefið út veglegt afmælisrit þar sem rakin er saga og helstu verkefni félagsins gegnum árin. Hluti upplýsinganna á þessari síðu og öðrum á vef félagsins eru fengnar að láni úr þessu riti en einnig úr erindi sem Bjarni Jónsson flutti á 50 ára afmæli Léttis og birtist í Hestinum okkar 3. tbl. 1978.