Lög Léttis

Lög Hestamannafélagsins Léttis

1.gr.
Félagið heitir Hestamannafélagið Léttir. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.
Félagið er aðili að ÍBA sem er aðili að LH og ÍSÍ og er því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

2.gr.
Tilgangur félagsins er:
  • Að stuðla að réttri og góðri meðferð hesta og efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra og hestaíþróttum.
  • Að greiða fyrir því að félagsmenn geti nýtt og útvegað sameiginlega haga, hús og hirðingu eftir því sem þörf krefur.
  • Að bæta og færa út reiðvegi innan og utan Akureyrar.
  • Að bæta aðstöðu þeirra sem stunda hestamennsku sem sýninga- og keppnisgrein, með því meðal annars að koma upp völlum og byggja upp íþróttamannvirki sem nýtast til æfinga og keppni í hestaíþróttum.
Þessum tilgangi er ætlast til að félagið nái með því:
  • Að fræða félagsmenn og aðra með fyrirlestrum og efni er varðar eðli og skapnað hestsins og rétta meðferð hans.
  • Að halda og vanda sem best til kappreiða, íþróttamóta, góðhestakeppna og sýninga.
  • Að leggja reiðhestakynbótum lið eftir því sem kostur er.
  • Að útvega sem besta og tryggasta sumarhaga fyrir hesta félagsmanna og auðvelda eftir því sem kostur er notkun þeirra að sumrinu. Einnig að tryggja að nægjanlegt framboð sé af byggingalóðum undir hesthús, í nánu samstarfi við bæjaryfirvöld.
  • Að stuðla að skipulagningu og umbótum í byggingu reiðvega innan og utan Akureyrar.
  • Að stuðla að því að reglur um búfjárhald séu virtar og meðferð hrossa í umdæmi Akureyrar sé í samræmi við þær.

3.gr.
Félagsmenn geta allir orðið sem þess óska og ekki eru aðrar takmarkanir á þátttöku í félagsstarfi en þær sem ytri aðstæður kynnu að hamla. Inntökubeiðni skal vera skrifleg eða rafræn og öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar hann hefur greitt árgjald til félagsins. Hver félagi skal greiða árgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi hverju sinni. Félagar sem ekki hafa náð 18 ára aldri greiða ekki árgjald. Félagar yngri en 18 ára hafa hvorki kosningarétt né kjörgengi. Séu hjón eða par í sambúð fullgildir félagar skráð á sama lögheimili skal annar makinn greiða 1/2 árgjald. Félagar 67 ára og eldri skulu undanþegnir árgjaldi, en halda félagsréttindum sínum í samræmi við lög L.H.

4.gr.
Reikningsár félagins er almanaksárið. Árgjald félagsmanna skal ákveðið fyrir næsta starfsár á hverjum aðalfundi. Eindagi árgjalds er 30. júní ár hvert. Ef árgjald er ógreitt á eindaga missir viðkomandi félagsmaður öll félagsréttindi þangað til árgjaldið er greitt. Ef árgjald er ógreitt 1. september fellur viðkomandi sjálfkrafa út af félagaskrá Léttis og það tilkynnt á næsta aðalfundi. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi á ný nema eldri skuld ásamt dráttarvöxtum sé greidd. Óski félagsmaður eftir úrsögn úr félaginu skal það gert skriflega til stjórnar félagsins. Félagatal skal liggja frammi á aðalfundi. Félögum sem skulda félagsgjöld, eftir eindaga, er óheimilt að koma fram fyrir félagið út á við. Brjóti félagi alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins eða vinnur gegn hagsmunum hestamanna er stjórn þess heimilt að víkja honum úr því. Félaga sem vikið er úr félaginu er heimilt að áfrýja þeirri ákvörðun til aðalfundar.
Reikningar félagsins skulu samdir, endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Reikningar félagsins skulu liggja frammi til skoðunar í eina viku fyrir aðalfund.

5.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 aðalmönnum og 2 varamönnum Kosningin gildir til tveggja ára. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum, varaformaður, gjaldkeri, ritari og 1 meðstjórnendur. Félagsstjórn hefur forgöngu í allri starfsemi félagsins og þótt nefndum séu falin tiltekin verkefni hefur stjórnin jafnan yfirumsjón. Komi til atkvæðagreiðslu á stjórnarfundi og falli atkvæði jafnt gildir atkvæði formanns tvöfalt.
Kjörgengir í stjórn eru allir skuldlausir félagar í hestamannafélaginu Létti. Tilkynning um framboð til embættis formanns eða til stjórnar Léttis skal berast uppstillingarnefnd/stjórn minnst hálfum mánuði fyrir aðalfund Léttis. Sitjandi formaður og aðrir stjórnarmenn skulu tilkynna kjörnefnd hvort þeir gefi kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa, minnst fjórum vikum fyrir aðalfund Léttis. Uppstillingarnefnd/stjórn er heimilt að samþykkja framboð sem koma fram síðar, enda hafi ekki komið fram nægur fjöldi frambjóðenda.
Formaður er framkvæmdastjóri félagsins. Hann boðar stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir. Skylt er honum að boða fund ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórn félagsins getur þó ákveðið að annar stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins gegni starfi framkvæmdastjóra. Stjórn félagsins ber ábyrgð og hefur yfirumsjón á fjárreiðum félagsins og einstakra deilda og nefnda. Deildum og nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án samþykkis stjórnar félagsins.
Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð vegna skuldbindinga félagsins umfram greiðslu árgjalds. Stjórn Léttis hefur frían aðgang að öllum hestamannamótum og viðburðum sem fram fara innan vébanda félagsins
Stjórn félagsins er óheimilt að selja eignir félagsins, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema samþykki aðalfundar eða félagsfundar komi til.

6.gr.
Á hverjum aðalfundi skal skipa í fastanefndir  á vegum félagsins. Allar fastanefndir skulu skipaðar þremur til sjö mönnum. Þá skal skipa formenn nefndanna og kallar formaður nefndina saman innan 30 daga frá aðalfundi, að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Formönnum nefnda er skylt að skila skýrslu eða fundargerð um störf nefndarinnar til stjórnar hvenær sem hún óskar. Öllum nefndum félagsins er skylt að halda fundargerðir yfir alla fundi viðkomandi nefnda og ber að senda þær á netfang félagsins að loknum fundi til varðveislu á skrifstofu þess hjá framkvæmdastjóra.
Fastanefndir og ráð eru eftirfarandi: Mótanefnd, Fræðslunefnd, Skeiðvallanefnd, Haganefnd Kaupangsbakka, Haganefnd Skjaldarvíkur, Skemmtinefnd, Ferðanefnd, Reiðveganefnd, Skeifu- og sjoppunefnd, Melgerðismelanefnd, Sörlastaðanefnd, Æskulýðsnefnd, Viðburðanefnd og Uppstillinga- og kjörnefnd.
Aðalfundur og eða stjórn félagsins getur skipað fleiri nefndir eftir þörfum.
Orðunefnd félagsins ber að skipa til 5 ára í senn. Um kosningu í nefndina og skipan hennar og starfslýsing er sérstök reglugerð.
Stjórn félagsins ber að skipa í Melgerðismelanefnd, 2 aðalmenn og 1 til vara.
Val fulltrúa á þing Í.B.A. miðast við félagsmenn skv. félagatali sl. starfsárs. Fjöldi fulltrúa á Landsþing L.H. fer eftir reglum L.H. þar um. Formaður félagsins er sjálfkjörinn fulltrúi félagsins á þing Í.B.A. og Landsþing L.H. en aðrir fulltrúar skulu valdir af stjórn. Kjörgengi til íþróttaþinga og ársþinga Í.S.Í. hafa þeir félagsmenn sem náð hafa 18 ára aldri sbr. 7. gr. laga Í.S.Í.
7.gr.
Aðalfund félagsins skal halda í síðasta lagi fyrir lok maí ár hvert. Aðalfund skal boða með minnst viku fyrirvara með auglýsingu á samfélagsmiðlum og með auglýsingum á heimasíðu félagsins.
Verkefni aðalfundar skal vera:
  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Lagður fram listi yfir nýja félaga frá síðasta aðalfundi og félagatal í heild sinni.
  • Skýrsla stjórnar.
  • Afgreiðsla reikninga félagsins,
  • Lögð fram fjárhagsáætlun.
  • Ákvörðun árgjalda félagsins.
  • Lagabreytingar sé þess óskað sbr. 9. gr.
  • Kosning stjórnar og nefnda.
Þá er heimilt að taka fleiri mál upp á dagskrá aðalfundar, sem og ræða mál á fundinum utan dagskrár, einkum þau er varða framtíðarstörf félagsins, ef meirihluti fundarmanna samþykkir.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

8.gr.
Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórnin telur þörf, eða ef 20 félagsmenn hið minnsta æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fundur skal boðaður með minnst 3 daga fyrirvara og telst löglegur ef löglega er til hans boðað, hversu margir sem mæta.

9.gr.
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi, þar sem mættur er minnst 1/10 hluti lögmætra félagsmanna, og 2/3 hlutar greiddra atkvæða samþykkja breytinguna. Mæti of fáir, skal boða til framhaldsfundar og öðlast þá tillögur til lagabreytinga gildi ef 2/3 hlutar fundarmanna samþykkja þær, án tillits til fundarsóknar. Lagabreytingar, sem félagar kunna að vilja bera fram, skulu berast stjórninni minnst ½ mánuði fyrir boðaðan aðalfund og skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og skal geta þeirra í fundarboði.

10.gr.
Stjórn félagsins er heimilt að stofna deildir innan þess. Deildir innan félagsins eru bundnar af lögum þess og skal leitað staðfestingar á deildarstofnun á næsta aðalfundi Léttis.

11.gr.
Stjórn félagsins ber að varðveita af fyllstu gaumgæfni öll þau skjöl og önnur gögn sem veita heimildir um störf félagsins og eignir þess og nákvæma félagaskrá, reikninga og bréfaskriftir. Einnig skýrslur yfir öll mót sem félagið tekur þátt í og/eða efnir til. Halda ber skrá yfir öll verðlaunahross félagins ásamt verðlaunum í peningum eða minjagripum. Einnig skal halda skrá yfir öll hross félagsmanna sem valin eru til sýninga og/eða keppni í nafni félagsins. Geta skal eigenda þeirra, knapa, nafns hrossanna, aldurs og litar.

12.gr.
Keppnisreglur skulu vera samkvæmt samþykktum Landssambands hestamannafélaga.
 
13.gr.
Stjórn félagsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga, gull- og silfurmerkishafa. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess. Gull- og silfurmerkishafar geta þeir einir orðið sem lagt hafa félaginu lið í gegnum árin. Um kjör heiðursfélaga sem og veitingu gull- og silfurmerkja félagsins er stuðst við reglugerðir.

14.gr.
Tillögur um félagsslit skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingar. Komi til þess að félagið yrði leyst upp skulu eignir þess vera í vörslu Íþróttabandalags Akureyrar og ráðstafar stjórn Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA, eignum þess í sem bestu samræmi við þann tilgang sem félaginu var settur í upphafi. Það telst ekki upplausn þótt félagið sameinist öðrum hliðstæðum samtökum í öðrum héruðum. Ráðstöfunarréttur á fjáreign félagsins kemur ekki til framkvæmda fyrr en að minnst þremur árum liðnum frá upplausn félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í maí 2022
Leit